post

Af hverju trúir fólk á guð? – Pælingar

Eitt af því sem ég velti oftast fyrir mér heimspekilega séð, er hvers vegna fólk trúir á guð. Það er engin spurning fyrir mér að Jesús, persónan sem slík, hafi verið til, en að hann hafi verið “sonur guðs” o.s.frv. á ég hins vegar erfiðara með að trúa.

Segjum sem svo að einhver kvænt kona sem þú þekkir, fullyrðir að í gærnótt hafi engill komið til hennar og sagt við hana að hún væri orðin ólétt. Myndirðu trúa henni? Myndirðu í fullri alvöru ekki halda að hún hafði frekar haldið framhjá manni sínum og að þetta væri leið hennar til þess að bjarga hjónabandinu á örvæntingafullan hátt? Af hverju ætti þetta að vera eitthvað öðruvísi fyrir rúmum 2000 árum?

Jesús er oft látinn halda á lambi á myndum, eða faðma börn, en ég held að það sé einhvers konar brella til að fá fólk til þess að trúa enn meira.

Kristnin hefur þróast mikið, en núna eru til hundruðir, ef ekki þúsundir ólíkar tegundir af kristni, sem mér finnst bæta á ótrúverðugleika hennar. Ef foreldrar mínir væru bókstafstrúar, þá væri ég ekki lengur kristin fyrir þeim ef ég hætti algjörlega að fara í messur. En það eru foreldrar mínir ekki, heldur kristin þvert í hina áttina. Ég sagði einhvern tímann við þau að ég tryði ekki á “þeirra” guð, heldur bara að það væri ‘eitthvað meira’ til. Mamma var ekki lengi að svara því að þá væri ég kristin. Væri þá manneskja, sem stundaði það að brenna niður kirkjur og eyðileggja biblíur, en tryði sem að það væri ‘eitthvað meira’ til, kristin?

Það skiptir ekki máli hversu mikið ég rökræði þetta við ákveðna ættingja mína, alltaf koma þau með klisjukennd svör sem þau geta ekki rökstutt. Eins og hver kannast ekki við setninguna ‘God works in  mysterious ways’ ? Hvers vegna fer kristið fólk alltaf í vörn þegar maður reynir að rökræða þetta og koma með hræðileg svör?

Ég “gúgglaði” þetta og rakst á ýmislegt athugavert.

Til dæmis að heimurinn varð til- en hvernig? Jú, þau viðurkenna Big Bang en spyrja svo hvað hafði verið á undan? Hvers vegna hafði þetta allt byrjað? Þau láta það nægja að telja fólki trú um að guð hafi byrjað þetta allt saman. Ég bíð hins vegar þolinmóð eftir svörum frá vísindamönnum.

Það næsta sem þau segja, er að heimurinn starfi undir lögmálum náttúrunnar, og taka sem dæmi að eftir einhvern tíma verður heita kaffið í bollanum þínum kalt. Það tæki vísindamann nokkrar sekúndur til þess að segja þessum mjög svo kristna manni sem skrifaða þetta, hvers vegna það gerist.

Höfundur þessarar greinar gefur svo annað dæmi: Guð er til vegna þess að hann er alltaf að koma til okkar, þ.e.a.s. í hugsanir okkar. Hann tekur það sem dæmi að þegar hann (höfundurinn) var trúleysingi, hvíldi það þungt á honum hvers vegna fólk trúir ekki á guð, en fyrir honum var það leið guðs inn í heilann á honum, til þess að reyna að fá hann til að verða kristinn. Ekki vegna þess að honum fannst þetta áhugavert heimspekilega séð eða neitt svoleiðis.

Greinin

Þegar einhver deyr, sérstaklega einhver sem er ‘of ungur’ til þess að deyja, segir kristið fólk oft eitthvað á þann veg að guð hafi “þurft hann þarna uppi”. Hvernig getur fólk trúað á guð sem tekur líf ungra barna vegna þess honum finnst hann þurfa á þeim að halda ?

Eins og ég sagði áður, þá hefur kristnin þróast töluvert. Á tímabili mátti ekki einu sinni dansa, allt var hryllilega strangt, fólk átti að lifa lífi sem ‘guði þótti þóknanlegt’. Skipti guð svo um skoðun?

Ég er ekki enn búin komst að niðurstöðu fyrir því hvers vegna fólki trúir á guð, en það sem ég held er að guð er eins og ímyndaður vinur sem fólk getur ekki vaxið upp úr. Auðvitað er gott að geta leitað til einhvers hvenær sem er, að hafa alltaf einhvern sem hlustar á og styður þig, en er þetta ekki full langt gengið? Kristið fólk, eins og t.d. ættingjar mínir, vilja einfaldlega ekki hlusta á rökræður um hvers vegna guð sé ekki til, því þau vilja ekki missa þennan dýrmæta vin.

 

Þetta er einfaldlega ég að tjá mínar skoðanir og ég vona að ég sé ekki að móðga neinn.

post

Matur og heimspeki

heimspeki